Ragnhildur H.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir.


„Undanfarið hef ég verið að spyrja sjálfa mig af hverju ég hafi seint á árinu 2023 farið að gera málstað Palestínu að mínum. Þótt mörg málefni hafi í gegnum tíðina haft sterka skírskotun til réttlætiskenndar minnar og fangað athygli mína um lengri eða skemmri tíma hef ég aldrei áður beitt mér svona mikið og ítrekað út á við.

Ég hef reynt að rifja upp hvað ég vissi um Palestínu og Gaza fyrir árslok 2023, hvað ég hugsaði og hvað ég mundi um sögu svæðisins. En ég er ekki viss um að myndin sem ég næ að kalla fram sé áreiðanleg.

Ég man eftir að hafa lesið Slysaskot í Palestínu í grunnskóla. Kannski í tíu ára bekk? Síðar, þegar ég var unglingur klippti ég myndir sem mér fannst flottar út úr Morgunblaðinu og Fréttablaðinu og límdi upp á vegg í einhverskonar collage. Ein eftirminnilegasta myndin var af tveimur ungum mönnum, Palestínumanni og Ísraela, sem stóðu augliti til auglitis og ögruðu hvor öðrum. Ísraelinn var í fullum herklæðum með hjálm og byssu, Palestínumaðurinn tómhentur í stuttermabol. Nokkrum árum síðar, í framhaldsskóla, datt ég inn á hluta af heimildarmynd um börn og unglinga í Palestínu og Ísrael sem sýnd var í lítilli kennslustofu, í valfagi sem ég var ekki í. Ég man enn heilu senurnar úr þessari mynd þó ég hafi hvorki séð upphaf hennar né endi.

Ég man eftir að hafa tvisvar lært um stofnun Ísraels í mýflugumynd, einu sinni í framhaldsskóla og einu sinni í háskóla. Lærdómurinn var frekar dauðhreinsaður, minnir mig, og skautaði yfir ofbeldið sem þessi pólitíski gjörningur krafðist. Engu að síður voru hughrifin skýr og afdráttarlaus: Hér höfðu verið gerð skelfileg, óafturkræf mistök. (Enn þann dag í dag kemur það mér á óvart að annað fólk geti kynnt sér þetta og fundist hugmyndin hafa einhverja raunverulega kosti.) Stofnun Ísraelsríkis var eins og uppskrift að dauða og hörmungum, enn þá verri fyrir þá sök að fólk hélt áfram að fæðast inn í mistökin, eins og gildru, og myndi halda áfram að gera það um ókomna tíð. Ég horfði á þessi mistök á korti í skólastofu og sá enga raunhæfa lausn.

Ég var í framhaldsskóla þegar BDS samtökin voru stofnuð og án þess að átta mig endilega á því eða hinu stærra samhengi meðtók ég eitthvað af sniðgönguskilaboðunum í gegnum menningarlega osmósu. Ég vissi að Sodastream væri ísraelskt og vörumerkið hafði alltaf á sér neikvæðan blæ í mínum huga. En svo rakst ég einhvern tíma á lista, í einhvers konar blaðagrein, yfir vörumerki með tengsl við Ísrael. Listinn var svo skelfilega langur og flókinn að hann fyllti mig vonleysi. Jafnvel þó ég gæti lagt hann á minnið, sem var afar ólíklegt, myndi ég alltaf þurfa að horfa upp á annað fólk kaupa öll þessi vörumerki og fyllast depurð. Ein gæti ég engu breytt.

En eitthvað eimdi samt alltaf eftir: Kryddjurtir í plastpökkum voru oft kirfilega merktar Ísrael og þá keypti ég þær aldrei.

En þessi tilfinning sem helltist yfir mig gagnvart landakortinu í kennslustofunni og listanum endalausa í blaðagreininni, vonleysið, var alltaf ríkjandi þegar ég hugsaði um Palestínu. Óréttlætið virtist vaxa með hverju árinu og ég gat ekki horft.

Stundum sé ég upptalningar á öllum þeim stríðum sem börn, unglingar og ungt fólk á Gaza hafa lifað frá upphafi þessarar aldar. Ég verð að viðurkenna að ég man ekkert eftir þessum atburðum. Athygli og minni eru auðlindir sem eru af skornum skammti, bæði hjá einstaklingum og samfélögum, og fylgja sjaldnast rökréttum eða réttlátum lögmálum.

Ég man samt eftir að hafa orðið mjög áhugasöm um sniðgöngu á Eurovision 2018, þegar keppnin var haldin í Ísrael, og umræðunni um hvort Hatari ætti að fara út og keppa eða sniðganga. Þessi litla fánabirting sem hljómsveitin endaði á að beita festi vonleysistilfinningu mína gagnvart framtíð Palestínu endanlega í sessi. Mér fannst þessi fánauppákoma frekar lítilfjörleg en það var ekki það versta, heldur viðbrögðin við þessu sjálfsagða smotteríi. Holskeflan af fordæmingu, eins og palestínski fáninn væri eitthvað ógeðslegt og óverjandi.

Þegar ég fékk svo veður af árás Hamas þann 7. október las ég engar fréttir. Ég bara gat ekki horft. Ekki endilega út af mannfallinu eða hryllingnum, ég get alveg lesið erfiðar fréttir, heldur af því að ég vissi að í kjölfarið myndi eitthvað hræðilegt gerast á Gaza. Kvíðinn var áþreifanlegur og ég vildi bara að þetta yrði búið.

En svo bara hætti það ekki. Og þrátt fyrir allt síuðust einhverjar tölur inn í huga mér, tölur um börn sem höfðu verið drepin í loftárásum, og ummæli ráðamanna í Ísrael. Og það rann upp fyrir mér að það sem væri að fara að gerast væri af því tagi að ég gæti ekki lengur litið undan. Sama hversu erfitt það væri eða hversu litlu það myndi á endanum skila.

Svarið við upphaflegu spurningunni, af hverju ég hafi ljáð þessum málstað nafn mitt en ekki öðrum, er tvíþætt: Hið yfirgengilega ofbeldi sem Ísrael beitir Palestínufólk með virkri þátttöku Evrópu og Bandaríkjanna, en þó fyrst og fremst hræsnin.

Ég hugsa í beinum línum. Allt sem sagt er á Vesturlöndum um Ísrael er á skjön. Það er augljóslega rangt. Og þess vegna þarf ég að segja eitthvað og skrifa eitthvað, því fólkið sem á, starfs síns vegna, að segja eitthvað gerir það ekki. Það hefur gildi að segja og skrifa sannleikann, jafnvel þótt það breyti engu áþreifanlegu. Manneskja eins og ég getur og á að andæfa því að sjúkrahús séu réttmæt skotmörk í stríði. Það hefur ekki jafn mikil áhrif og þegar utanríkisráðherra Íslands fullyrti í pontu hjá Sameinuðu Þjóðunum að sjúkrahús væru réttmæt skotmörk í stríði, en það skiptir samt máli að ég andæfi. Það skiptir máli að við höldum áfram að tala þegar stjórnmálafólk og fjölmiðlar byrja að líta á þjóðarmorð sem eðlilegan hlut, röð tilviljanakenndra atvika þar sem gerandinn getur hverju sinni haft réttmæt rök fyrir gjörðum sínum sem rétt sé að sýna skilning og þolinmæði.

Ég álpaðist inn í sniðgönguna fyrir slysni. Vildi gjarnan gera eitthvað og svo poppaði facebook hópurinn Sniðganga fyrir Palestínu upp í algóritmanum. Ég hafði heyrt út undan mér að fyrirtækið með skrítna nafnið, Rapyd, væri ísraelskt og að forstjórinn væri yfirlýstur stuðningsmaður loftárásanna á Gaza. Mér fannst tilhugsunin um að ég gæti ekki sinnt erindum daglegs lífs á Íslandi án þess að eiga í endurteknum viðskiptum við hann hræðileg. Væri það ekki eins og að styðja hann í verki, oft á dag? Blikka hann vinalega?

Svo urðu vatnaskilin hjá mér með einum stökum pósti í þessum facebook hópi, þar sem sett voru upp 7 vörumerki til að sniðganga á Íslandi. (Ávextir og grænmeti frá Ísrael, Rapyd, Teva, Sodastream, MoroccanOil, HP og Coca Cola í dag, júlí 2025) Þessu fylgdi algjör uppljómun. Öfugt við listann endalausa sem ég sá 2006 eða hvað það nú var, þá væri þetta ekkert mál. Ég gæti þetta alveg.

Sniðgangan varð leið fyrir mig til þess að gera eitthvað smávegis á hverjum degi. Það dregur úr valdaleysinu og þar með úr vonleysinu að aðhafast, þó í smáu sé. Það er líka auðvelt að tengjast öðru fólki sem er ekki sama um glæpi gegn mannkyni í gegnum sniðgönguna, og það eflir trúna á mannkynið og framtíðina.

En fyrst og fremst finnst mér sniðgangan vera leið til að tala um Palestínu og Ísrael. Auðvitað er líka hægt að ná áþreifanlegum sigrum, valda ísraelska ríkinu peningaskaða og einangra það á alþjóðavísu. En jafnvel þó sniðgöngukrafan beri ekki beinharðan árangur, þá gerir hún það að verkum að við tölum um Palestínu þegar annars væri þagað.

Sniðgönguvinkillinn er svo mikilvægur því hann dregur fram alla þá milljón snertipunkta sem Ísland hefur við Ísrael. Snertipunkta sem margir vilja láta eins og séu ekki til eða að séu fullkomlega eðlilegir. Sniðgangan er verkfæri til að benda á hræsni, tvískinnung, efnahagslega kúgun og fjárhagslegan ávinning af þjóðarmorði. Um leið er hulunni svipt af valdatengslum og hugmyndafræði sem gætu þess vegna rústað mannlegri tilvist á jörðinni.

Sniðgangan er eitthvað sem hver sem er getur tekið þátt í og sniðið sér stakk eftir vexti. Hún fær okkur til að hugsa um Palestínu á hverjum degi. En aðalmálið er að halda áfram að tala upphátt og opinberlega, að tala saman gegn þessum hliðarveruleika sem stjórnmálafólk og fjölmiðlar hafa búið til, þar sem þjóðarmorð er allt í einu orðið óhjákvæmilegt og ásættanlegt.“

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, sagnfræðingur.

Previous
Previous

Guðný G.

Next
Next

Adda Steina