Adda Steina
Adda Steina og Agla Ýrr
Baráttan er miklu stærri en ég.
„Þegar ég byrja 20 október að pósta efni frá Gaza hafa þúsund börn þegar verið myrt. Ég fékk engin viðbrögð við þessum póstum og færslum mínum og velti fyrir mér afhverju fólk tæki sig ekki saman við að stöðva þetta blóðbað. Hvar eru allir sem risu upp til stuðnings Úkraínu á sínum tíma?
14 ára sonur minn opnaði augu mín fyrir því að til væru fleiri leiðir til þess að hafa áhrif á samfélagið. Hann var að tannbursta sig og sýndi mér tannkremstúpuna þar sem stóð að varan væri framleidd í Ísrael. Ég gæti þá allavega sniðgengið ísraelskar vöru og sýnt þannig andóf í verki. Við ræddum heilmikið um borgaralega óhlýðni í ljósi sögunnar. Hvernig Rósa Park hafði áhrif á aðskilnaðarstefnuna í Bandaríkjunum og hvernig andóf getur einnig falið í sér áhættu.
Í framhaldinu vildi hann fá frí í skólanum til þess að mótmæla hjá ráðherrabústaðnum en mér fannst það ekki góð hugmynd og niðurstaðan var sú að ég fór ein fyrir okkar hönd.
Öfgar eru miðaðar við eitthvað norm sem breytist frá ári til árs. Einu sinni þóttu kvenréttindi öfgar, og konur sem fóru út af heimilinu að vinna eins og karlar í buxum voru ógn fyrir samfélagið. Sífellt er verið að mata okkur á röngum upplýsingum og oft þarf innsæi til þess að lesa sig í gegnum óreiðuna og komast að hinu rétta. Að tapa innsæinu er svo auðvelt og engin vandi að ruglast í upplýsingaóreiðunni sem dynur á okkur.
Fólk segir við mig: „Gott hjá þér að standa í þessu“ sem má skilja sem svo að það sjálft sé upptekið í vinnu og öðru.“ En ég held að fólk vanmeti jákvæðu áhrifin af því að vera í baráttu eða hugsjónarvinnu sem meir og minna skilar sér aftur í ríkri tengslamyndun. Fátt er meira nærandi en að fara í mótmæli eða matarboð með palestínsku fólki. Ég er svo þakklát fyrir það sem ég hef lært og kynnst undanfarin misseri. En jafnframt er ég með samviskubit yfir því að hafa kynnst svona mörgu frábæru fólki í gegnum allar þessar hörmungar. Ég fór tvær ferðir til Kairo. Eina í apríl og aðra í maí 2024. Engin hetjusaga frekar en hver önnur hvatvísi. Ég hafði aðstoðað í fatasöfnun fyrir flóttafólk þegar ég frétti af auglýsingu á hópspjalli eftir einhverjum til þess að fara suðureftir með peninga fyrir hjón sem þurftu að komast af Gaza. Konan var komin á steypirinn og átti að eiga eftir nokkra daga. Það þurfti að hafa hraðar hendur. Hún var sett á 13. apríl og ég fór ásamt annarri konu út 10. apríl. Við vorum bara að ferja peninga fyrir ungu hjónin og íslenskt vegabréf fyrir fólk sem hafði fengið sameiningu hér heima afþví póstgöngur eru svo ótryggar. Við hittum frænda hjónanna sem var búsettur í Egyptalandi. Hann tók við peningunum og skráði hjónin og ófætt barn á útgöngulista. Þetta snérist um það að koma konunni út af Gaza á sjúkrahús í Kairo þar sem hún gæti fengið að fæða við öruggar aðstæður og líka að koma peningum til skila fyrir ófæddan einstakling ef svo illa færi að fæðing myndi eiga sér stað á Gaza en þá þurfti að borga fyrir nýfæddan einstakling sama gjald og borga þurfti fyrir börn fram að 17 ára aldurs. Þeirra mál tengdist ekkert Íslandi né fjölskyldusameiningunum hérna heima. Þetta var þegar landamærin voru ennþá opin ef þú gast á annað borð borgað þig út. Í seinni ferðinni fór ég með pening fyrir fleira fólk frá sömu fjölskyldu en þá vorum við ekki jafn heppin afþví þá skall allt í lás á landamærunum og við náðum þeim ekki út.
Í gegnum ferðirnar til Kairo og kynntist ég yndislegu fólki. Ég tengdist sérstaklega mæðgum sem voru nýkomnar yfir til Kairo. Dóttirin Hyata var aðeins tveggja ára. Ég sá vídeó af Hyata þegar hún fékk flog undir sprengjuárás á Gaza. Í seinni ferð minni til Kairo í maí dvaldi ég hjá þeim mæðgum í fjóra daga. Núna hafa þær síðan flutt sig um set og dvelja þessa stundina í Belgíu þar sem þær eru að sækja um vernd. Ég er í persónulegu sambandi við þær og fylgist með gangi mála. Annar aðili sem ég hef persónuleg afskipti af er Yasan hérna heima. Ég vildi óska þess að fleiri gætu verið persónulega í þannig sambandi af því þá væri þetta miklu auðveldara. Sjálf er ég mun ríkari fyrir vikið. Ekki fjárhagslega en sem manneskja hef ég fengið að þroskast. Á sama tíma og ég horfi upp á hörmungarnar fæ ég líka samviksubit afþví ég hef lært svo mikið um lífið. Ég er berskjaldaðri fyrir vikið og skipti sjálf minna máli sem er góð tilfinning. Ég líki því við að vera ein af öllu fólkinu í lest í London og ekkert merkilegri en aðrir. Ég er hætt að spá hvort baráttan hafi áhrif á ferliskránna mína eða velta fyrir mér hvort ég hangi áfram á klafanum. Baráttan er miklu stærri en ég. Mér finnst eins og ég sé að frelsast undan höftum samfélgasins. Gildi mín eru skýrari í dag. Ef vinnan mín er þannig að ég missi hana af því ég tek þátt í mannréttindabaráttu þá er sú vinna ekki þess virði ef hún gengur þvert á mín eigin gildi.“
Adda Steina. Þroskaþjálfi og menningarmiðlari.