Guðný G.

Guðný Gústafsdóttir.

Orð úr kviku Gasa

„Ég fæddist inn í stórfjölskyldu í Neskaupstað „Litlu Moskvu“ og mér var kennt að trúa á á sósíalisma og Jesú Krist. Hann var fyrsti Palestínumaðurinn sem ég kynntist. Langamma mín kenndi mér að Jesú hefði barist fyrir frelsi og mannréttindum sem þá, eins og nú, væru ekki sjálfgefin. Það þyrfti alltaf að berjast fyrir þeim og verja. Sjálf barðist hún fyrir kosningarétti kvenna. Hún kallaði sig kvenfrelsiskonu, því hún lagði mannréttindi og frelsi að jöfnu. Hún kenndi mér líka að við, sem meira megum okkar, þurfum að standa vörð um þau sem minna mega sín. „Það sem þér er veitt getur aftur verið frá þér tekið“ sagði hún. Einmitt það sem við erum að upplifa í dag, þegar mannréttindi bæði hópa og heilla þjóða er ógnað og þau fótum troðin.

Baráttan fyrir mannréttindum, frelsi og friði var því hluti af lífi mínu frá því ég man eftir mér. Seinna gekk ég með hernámsandstæðingum, með kvennahreyfingum og friðarhreyfingum bæði hér heima og í útlöndum. Þetta er búið að vera löng ganga og henni er hvergi nærri lokið.

Hjarta mitt hefur slegið með Palestínu og frá því að ég var barn og sem unglingur las ég um sögu og baráttu þjóðarinnar. Ég fór að vera með keffiyeh í menntaskóla. Í þá daga kölluðum við keffiyeh einfaldlega Arafat klút og með því að ganga með hann sýndum við samstöðu með frelsisbaráttu Palestínu. „Tveggja ríkja lausnin“ hefur aldrei verið raunhæfur möguleiki í mínum huga. Síonistar hafa frá upphafi sýnt og sannað að þeir hafa ætlað sér að eignast Palestínu alla. Við höfum fylgst með því á landakortinu, í fréttum, í áratugi að ætlunin var og er að útrýma Palestínu og Palestínsku þjóðinni. Hernámið hefur verið markvisst og grimmt, frá upphafi. Samt sá enginn fyrir að þeir kæmust upp með þjóðarmorðið sem þeir eru að fremja á Gaza núna, í beinni útsendingu fyrir allan heiminn og að Vestræn ríki sem stæra sig af því að standa fyrir mannréttindi og frelsi fólks taki þátt í þjóðarmorði með þögn og aðgerðarleysi. Íslensk stjórnvöld þar með talin. 

Facebook hefur aldrei verið minn vettvangur en fyrir rúmlega einu og hálfu ári fann ég tilgang með henni: Hún er hluti af líflínu fólksins á Gaza. Þar kynntist ég fólkinu mínu, hverjum á fætur öðrum, tugum fólks, úr öllum stéttum samfélagsins. Mahmoud Suleiman er einn af þeim sem stendur hjarta mínu nær. Mahmoud bjó í Gaza borg með fjölskyldunni sinni, konu sinni Tohá og fjórum börnum þeirra. Elst er Raghad og síðan koma strákarnir þrír, Hassan, Mohammed og Zain. Heimili þeirra var sprengt upp í upphafi stríðsins og hafa þau ítrekað verið á flótta. Í húsarústum eða á götunni. Þau sluppu við dauðann, aftur og aftur. Núna er heimili þeirra lítið tjald, í tjaldbúðum á Khan Yunis svæðinu. Þegar við tölum saman segir Mahmoud mér frá daglegu lífi fjölskyldu sinnar á Gaza. Hvað það þýðir að lifa í miðju þjóðarmorði. Hvernig hver stund er áskorun um að leita leiða til að lifa af. Hann segir mér frá því hvernig hann drýgir hveitið og tekur mesta óbragðið úr skemmdum mat með rósavatni. Fyrir rúmum mánuði freistaðist hann til að leita til amerískrar matarstöðvar í von um vistir fyrir fjölskylduna. Maður sem staddur var við hliðina á honum var myrtur af hernum og Mahmoud slapp naumlega úr árás glæpagengis, hóps manna sem eru vopnaðir og fjármagnaðir af ísraelsher. Ég spurði döpur: „Hvernig stendur á þessu?“ og hann svaraði: „Stríð draga fram það besta og það versta í fólki vina mín“. Við tölum um börnin og hvernig þeim reiðir af í kulda vetrarins, hita sumarsins, undir stöðugum árásum, og viðvarandi matarskorti. Á betri dögum, þegar til er matur, segir hann: „Ég vildi óska að þú værir hjá okkur að smakka“. Þegar stríðinu lýkur ætlum við að sitja saman og borða Gaza-maqluba undir friðsælum himni. 

Í hvert skipti sem ég tala við Mahmoud stækkar í mér hjartað. Samtölin okkar tengja saman stef úr fortíð og nútíð okkar beggja. Í öllum okkar samtölum birtist trúin á Guð. „Við tölum saman á morgun, ef Guð lofar, segir Mahmoud. Orðin þrjú sem ég var send í háttinn og vakin með á Neskaupstað, kvödd og heilsað með alla daga þegar ég var barn. „Ef Guð lofar“, áminning um kærleikann og þolinmæði í daglegu lífi sem við höfum svo litla stjórn á sjálf. Orð sem fyrir Mahmoud í dag eru leiðarstef í myrkri manngerðra hörmunga, hálmstrá vonar í þrautargöngu þjóðarmorðs. 

Við tölum um þjóðarmorðið. Þegar Mahmoud talar um árásirnar, dauðann og daglegar þjáningar fólksins verða orðin hans eins og ljóð ort úr kviku Gaza: „Við héldum að sorg væri tímabundin, en hún breytist í loftið sem við öndum að okkur. Við reynum að fá okkur pásu, en sprengjuárás kemur okkur að óvörum. Við flýjum þunglyndið og förum á kaffihús til að skrifa eitthvað um lífið, en erum síðan rifin í sundur af eldflaugum. Þær skilja ekki einu sinni eftir tómarúm dauðans, heldur ásækja þær okkur í þögn og hávaða, í gráti okkar og hlátri, í litlum ánægjustundum okkar og stuttum flótta frá hrörnandi veruleika. Ó, Guð minn góður, láttu þetta ekki standa yfir of lengi.“ 

Guðný Gústafsdóttir, verkefnisstjóri. 

Previous
Previous

Ásdís Birna

Next
Next

Ragnhildur H.