Ragnheiður S.

Steindór og Ragnheiður.

Ég get ekki setið hjá…

„Ég er íslensk kona, íslensk móðir, íslensk amma. Fólkið mitt er hraust, hefur þak yfir höfuðið, mat á diskum, býr við málfrelsi, hefur aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu, afþreyingu og við bæjardyrnar opnar stórbrotin náttúran faðminn, þar sem finna má fegurð, ró og samhljóm með almættinu.

Hvers vegna í ósköpunum er mér þá svona þungt um hjartað, hvers vegna vakna ég á hverjum morgni með kvíðahnút í maganum?

Jú, það er einmitt vegna þess að ég er kona, móðir og amma og get sett mig í spor systra minna í fjarlægum heimshluta, sem elska fólkið sitt á sama hátt og ég  en njóta ekki sömu lífsgæða. Þessar konur eru skelfingu lostnar  hverja stund.  Þær sofa ekki vært  á nóttunni og hvílast, þær velta því ekki fyrir sér eins og ég hvort  börnin læri nýjan söng á leikskólanum í dag, hvað þær eigi að hafa í kvöldmatinn, hvort ömmustrákurinn verði smiður, læknir eða þungarokkari. Þær óttast alla daga um líf og limi ástvina sinna, heimili þeirra eru í rúst, þær horfa upp á ungbörnin veslast upp, veikjast og deyja af hungri og þorsta og eiginmenn þeirra, börn og barnabörn eru í stöðugri lífshættu því sprengjunum rignir yfir og það er í ekkert skjól að venda, jafnvel spítalar og skólar og svokölluð "örugg svæði" eru skotmörk! Grimmdin og miskunnarleysið eru allsráðandi og alltumlykjandi. Svona er líf systra minna í Palestínu. Þær hafa búið við þennan hrylling í óralangan tíma, þær hafa grátið svo marga ástvini, hlaupið með svo mörg börn í fanginu sem útlimir hafa verið sprengdir af eða leyniskyttur skotið í höfuðið og þær hafa hrópað svo mikið á hjálp að það er göldrum líkast að nokkur palestínsk kona skuli vera uppistandandi! En þær hrópa fyrir daufum eyrum.

Þeir sem hafa raunveruleg völd til að stöðva þetta brjálæði heyra ekki, vilja ekki heyra og taka ekkert mark á tilmælum, fordæmingu, þrábeiðni eða dómum virtra alþjóðastofnana. 

Heimurinn var friðsamlegri þegar ég var barn. Foreldrar mínir voru gjöfular manneskjur með stór og opin hjörtu. Ég sá hvernig börn og fólk sem minna mátti sín eða átti undir högg að sækja hreinlega sogaðist í fangið á móður minni, sem þerraði tár, laðaði fram bros og hlátur hjá ungum sem öldnum og var óspör á mat, drykk og veraldlega aðstoð. Og ég sá hvað hún var elskuð fyrir þessa eiginleika sína. Faðir minn var mikill mannasættir og "diplómat" í sínu lífi og starfi, hann sparaði aldrei hrós og uppörvun og leitaði alltaf leiða til úrlausnar mála. Og ég sá hvað hann naut mikillar virðingar fyrir þessa eiginleika. Ég lærði af þeim að mér líður betur ef fólkinu í kringum mig líður vel. Samkenndin var stór þáttur af öllu því góða sem þau kenndu mér með sínu fordæmi. Ég er forsjóninni þakklát fyrir að þau eru farin yfir móðuna miklu og þurfa ekki að horfa upp á þá sturlun sem á sér stað í veröldinni núna. Það hefði orðið þeim þungbær raun.

Allt sem ég hef lesið, heyrt og séð um mannréttindabaráttu, hvort sem það er sjálfstæðisbarátta þjóða eða réttindabarátta minnihlutahópa hefur nært þá samkennd og réttlætiskennd sem foreldrar mínir tendruðu í mér. Mér finnst mikilvægt að við segjum börnunum okkar þessar sögur, um erfiðleika og andstöðu, fórnir og kjark og ræðum um þann árangur sem hefur náðst. Nóg er til af vel gerðum heimildaþáttum, bókum og bíómyndum um þessi mál sem auka skilning á mikilvægi mannréttindabaráttu og þá einnig þeirri sorglegu staðreynd að sigur í slíkri baráttu er aldrei algjör og endanlegur. Öll réttindi þarf að vakta og verja, því þau er hægt að afnema með  ýmsum hætti, undir hógværu yfirskini lagalegra umbóta eða með einu pennastriki.

Í Palestínu eru Ísraelsmenn að fremja þjóðarmorð. Það dylst engum sem hefur augu til að sjá með og eyru til að heyra með.  Sjöunda október frömdu Hamasliðar níðingsverk, sem ég fordæmi af heilum hug, en finnst samt skiljanlegt og augljóst að það var endalaus niðurlægingin, fangelsanir barna jafnt sem fullorðinna, án dóms og laga, pyndingar, dráp og hvers konar misþyrmingar Ísraela á Palestínumönnum, yfirtaka lands og brottrekstur fólks af heimilum sínum í meira en sjö áratugi sem var orsök þess sem gerðist  7.október. Og hefndaraðgerðir Ísraela eru í engu samræmi við hlutföll ofbeldisverkanna á báða bóga. Víða í veröldinni geisa hryllileg stríð, glæpir eru framdir og fólk er beitt ofbeldi og misrétti, en þarna hafa  ofbeldismennirnir tekið niður grímuna og opinberað þá fyrirætlan Zionista að gereyða palestínsku þjóðinni. Hjálpargögn eru eyðilögð, mataraðstoð kemst ekki til skila og hjúkrunar- og fréttafólk er myrt í trássi við öll alþjóðalög og mannúðarsamninga.  Þeir tala um fólkið í Palestínu sem rottur sem þarf að útrýma og líta á palestínsk börn sem genabera og framtíðarvon þjóðarinnar sem þeir hafa ákveðið að losa sig við -  þess vegna eru börnin réttdræp! Og árásarliðið hefur svo sannarlega "staðið sig vel" - þeir framfylgja áætlun leiðtoganna af hörku, skjóta börn á færi og þau sem lifa af eru svo skemmd og illa farin af hræðslu, missi og sorg að þau verða líklega aldrei heilar manneskjur á ný, þau titra og skjálfa, stjörf af skelfingu, rúin öllu trausti til lífsins.  

Ég er þakklát fyrir að vinir mínir, vandamenn og megnið af kunningjahópnum  virðast hafa  svipaða afstöðu og ég til þessara mála, þó margir hafi hægt um sig og láti ekki öllum illum látum eins og ég. Ég hef fengið einstaka athugasemdir um að slaka nú á, öll okkar hróp og mótmælagöngur breyti jú engu, við séum þreytandi, áhrifalaus, íslenskir ráðamenn skelli skollaeyrum við hávaðanum í okkur og við höfum svo sannarlega engin áhrif út fyrir landsteinana! Margir segjast ekki hafa andlega heilsu  til að fylgjast með, það sé einfaldlega of sárt og erfitt. Ég virði þá afstöðu og skil vel að fólk hvíli sig frá hryllingnum öðru hvoru. En þögn er sama og samþykki og dropinn holar steininn. Ég get ekki setið hjá og beðið eftir því að íslensk stjórnvöld skammist sín og viðurkenni opinberlega að það er verið að ganga milli bols og höfuðs á Palestínumönnum, þjóðinni sem lýsti yfir sjálfstæði sínu 1988 og Íslendingar stærðu sig af að hafa viðurkennt árið 2011, - fyrst ríkja Vestur-Evrópu! Ég get ekki setið hjá og beðið eftir því að fá raunverulegar fréttir, hversu sárar og erfiðar sem þær eru og leita þær því uppi á alnetinu, frá erlendum fréttamiðlum og ég er líka svo heppin að eiga góða vinkonu sem fylgist afskaplega vel með auk þess sem íslenskur stuðningshópur Palestínumanna er mjög fróður og vel tengdur. Því þó skömm sé frá að segja hafa íslenskir fjölmiðlar að miklu leyti brugðist, segja frá fréttum sem eru svo stórar og hryllilegar að allir fjölmiðlar sem vilja standa undir nafni verða að fjalla um þær en fara síðan með veggjum í stíl við stefnu stjórnvalda, sem bukka sig fyrir peningavaldinu í Ísrael og Ameríku. Það má ekki styggja Mammon! 

Alvöru upplýsingar á íslensku um þessi mál  (sem önnur) sæki ég mest í Heimildina og Samstöðina, sem ég er eilíflega þakklát fyrir langa umræðuþætti, þar sem ekki aðeins er kafað djúpt í málin, heldur er það gert á mannamáli og samræðurnar þar að auki oft mjög skemmtilegar. Húmorinn auðveldar okkur nefninlega stundum að ræða um erfiða hluti. Ég hafði aldrei skilið pólitík eða haft gaman af slíkri samfélagsumræðu fyrr en ég fann Samstöðina, orðin ríflega sjötug!

Nei ég get ekki setið þegjandi hjá. Ég mun halda áfram að þreyta fólk með því að deila efni og upplýsingum á samfélagsmiðlum og ég mun halda áfram að styrkja baráttuna, aðstoða eftir megni og mótmæla, hrópa mig hása, ganga með fólkinu mínu með barnabarn við hönd eða á herðunum og svo mun ég biðja Almættið stóra, hvaða nafni sem það nefnist og allar góðar vættir um að færa okkur frið, ekki bara vopnahlé - heldur frið. Ég get ekki setið hjá, ég verð að berjast fyrir fyrir betri framtíð, berjast, því börnin börnin okkar allra eiga rétt á framtíð, berjast fyrir systur mínar í Palestínu!“

Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona.




Previous
Previous

Sesselja H.

Next
Next

Oddný B.