Ellen L.

Ellen Larsen.

Ég elska fólk.

„Mannúðarbaráttan eða samkenndin kemur frá báðum foreldrum mínum og sérstaklega þó mömmu sem var ljósmóðir og síðar hjúkrunarfræðingur. Mamma var hætt að vinna sem ljósmóðir þegar ég fæddist en hún vann sem hjúkrunarfræðingur á Grund og fyrstu ár ævi minnar bjuggum við í einu herbergi á Grund vegna húsnæðisskorts í Reykjavík.

Störf mömmu höfðu ekki endilega áhrif á mig, frekar sögurnar sem hún sagði mér. Hún hafði yndi af að segja mér dramatískar sögur, en sannar sögur. Allt meira og minna um lítilmagnann og illa meðferð á fólki sem vakti með áheyrandanum mikla samkennd. Hún endaði alltaf sögurnar á því að segja: „Getur þú ímyndað þér hvernig þeim leið?“ Mamma kenndi mér að setja mig í spor annarra.

Ég er af 68 kynslóðinni og þá vorum við að berjast fyrir friði í Víetnam. Þetta voru miklir umbrotatímar svo mikil gerjun, mannréttindi og kvenréttindi í bland. Mamma var alltaf að segja að ég færi örugglega í hjúkrun afþví ég var alltaf með veikar dúkkur og mikið um slys í dúkkuhópnum. En ég mátti ekki heyra á það minnst og eyddi þessu tali hennar alltaf og ákvað að ég skyldi nú ekki fara í hjúkrun einsog hún. Ég elti manninn minn til Parísar þegar hann fór í doktorspróf fór sjálf í nám. Mér fannst æðislegt að læra bókmenntir og frönsku en hins vegar var mér alveg ljóst að ég myndi aldrei verða kennari. Þennan tíma sem ég var í frönsku blundaði alltaf í mér þrátt fyrir allt löngun til þess að fara í hjúkrun en leiddi hana hjá mér. Alltaf þegar ég heyrði einhvern segja “já hún er hjúkrunarfræðingur” hugsaði ég með mér, mikið vildi ég vera í hennar sporum.

Á endanum sló ég til og setti frönskuna til hliðar og hóf nám í hjúkrun hér heima og fann aldeilis mína fjöl. Ég vann alltaf á gólfinu sem á ekki við alla. Ég var semsagt ekki það sem kallað er stundum slæðuhjúkka. Það gaf mér svo mikið að vera innan um fólkið líklega vegna þess að ég er alin upp á elliheimili og elska fólk. Þegar maður er hjúkrunarfræðingur skynjar maður að peningar og völd hafa ekkert að segja í veikindum. Veikindi fara ekki í manngreiningarálit. Milljónamæringurinn verður alveg jafn veikur og fátæki maðurinn þegar fólk er veikt og komið í treyjuna, “eign þvottahús landspítalans”

Í sambandi við stríðið í Gaza upplifi ég hrylling, vonleysi og máttleysi. Ég á ekki nógu sterk orð yfir þessar tilfinningar. Ég tryllist út í valdafólk, sérstaklega Kanann. Ég fer í öll samstöðumótmælin. Ég er skreytt nælum og nota palestínuklút, kaupi það sem er til sölu og tek þátt og borga í safnanir.

Heimurinn er að hríðversna. Ástand jarðarinnar er þannig, allt út af mannfólkinu og það mun ekki líða á löngu þar til jörðin hristir sig og allir þeytast af henni, sníkjudýr og afætur. Það er svo illa farið með jörðina. Eyðing regnskóga, öll þessi hlýnun og þjóðarmorðið á Gaza. Það er ekki hægt að koma því í orð.“

Ellen Larsen, hjúkrunarfræðingur.

Previous
Previous

Þórdís R.

Next
Next

Mirjam