Mirjam

Mirjam

Bóndinn Anas.

„Lengi vel var Gaza eitthvað óskiljanlegt fyrirbrigði í huga mínum. Enda hafa fjölmiðlar í gegnum árin fjallað um lífið á Gaza sem ástandi sem er flókið og óskiljanlegt. Sem unglingur fylgdist ég með Arafat og skildi sem svo að ég væri að hylla hryðjuverkasamtök ef ég sveipaði um mig Keffyja klút sem var í tísku í norður Evrópu í kringum 1980. Seinna var hálfpartinn bannað að klæðast Keffyja klút, jafnvel í Hollandi þar sem ég ólst upp. Klúturinn var tákn ofbeldis og hryðjuverka og best að vera ekkert að auglýsa hann. Í framhaldinu hætti ég að spá í þessa hluti. Í gegnum árin þegar fjallað var um Gaza sá ég frekar óskiljanlegann fréttaflutning af landamærum og stríðsátökum. Ég skildi hvorki upp né niður um hvað þetta snérist þarna í Miðausturlöndum fjær. Síðan gerist 7. október 2023 og þá er einsog helvíti á jörðu sé leyst úr læðingi gegn íbúum á Gaza og sprengjunum er varpað linnulaust. Framan af hugsaði ég með mér: „þetta getur ekki staðið lengi, heimurinn mun ekki leyfa þessu að halda svona áfram, Ísrael hlýtur að hætta þessu fljótlega.“ Ég heyrði glórulausar yfirlýsingar ísraelska ráðamanna og gat ekki ímyndað mér að þeir né nokkur kæmist upp með svona ofbeldi. Leiðtogar annara þjóða hlytu að grípa inn í og stöðva þessa grimmd og vitleysu hvað úr hverju.

Annað hefur komið í ljós, grimmdin heldur áfram og nær hæðum sem maður hefði ekki getað ímyndað sér. Allt sem sagt var, einsog tilvitnanir í helga texta sem teknar voru úr samhengi eins og það að útrýma Amalek er verið að framkvæma núna. Meira til og allt án inngrips frá þeim sem hafa völdin í heimsbyggðinni.

Þegar sprengingar höfðu staðið yfir í viku fór ég að kynna mér betur sögu Palestínu. Ég keypti bókina „100 ára stríðið“ eftir Rashid Khalidi og hlustaði á sögur fólks á samfélagsmiðlum og YouTube. Sögur bæði frá palestínumönnum og ísraelsmönnum. Fljótlega en samt „loksins“ fór ég að sjá í gegnum ísraelska áróðurinn. Allt sem ég hafði verið mötuð af í gegnum árin stóðst ekki við nánari skoðun. Neyðin hjá íbúum í Gaza varð stöðugt verri. Fleiri og fleiri hrökktust af heimilum sínum og maturinn sem var þegar af skornum skammti hækkaði óðum í verði. Á einhverjum tímapunkti árið 2024 þegar hjálparköllin fóru að berast á samfélagsmiðlum og þegar fólk gat ekki lengur séð sér sjálft farborða náði til mín maður frá Gaza. Við fórum að spjalla. Hann hafði fram að þeim tíma fengið litla aðstoð og þannig að ég fór að senda út pening svo að hann gæti framfleytt fjölskyldunni sinni. Mér finnst svo frábært að í dag getum við spjallað beint við fólkið í Palestínu. Þó ég tali ekki arabísku og þau tali hvorki ensku né íslensku getum við þrátt fyrir allt talað saman með þýðingatólinn sem standa okkur til boða sem er stór merkilegt. Þar með er strax komin tenging, skilningur og samkennd. Þegar í ljós kom að Anas er bóndi náðum við fljótlega góðu sambandi. Hann hafði verið með sauðfjárbúskap stutt frá múrnum sem skilur á milli Gaza og hernumdu Palestínu sem kölluð er Israel. Heimili hans hafði verið aðeins 400 metrar frá múrnum. Verandi sjálf sauðfjárbóndi með fjörubeit skammt frá Þórshöfn á Norðausturlandi fór ég að spyrja hann út í búskapinn á Gaza og hvað hefði orðið um féð. Hann sendi mér myndir af fénu sínu og aðstöðunni fyrir það. Ærnar litu heilbrigðar út og greinilegt að hugsað hafði verið vel um dýrin. Í spjalli okkar kom ástríða hans fyrir búskapnum í ljós en einnig sársaukinn yfir því að allt væri farið. Þegar hann og fjölskyldunni var gert að yfirgefa svæðið og flýja að heiman voru dýrin drepin og húsin eyðilögð. Anas hafði einmitt verið að byggja nýtt íbúðarhús fyrir fjölskylduna sína þegar árásirnar byrjuðu. Til fjölskyldunnar telst hann og kona hans og sex börn. Og eins og tíðkast í Gaza bjuggu amma og afi líka hjá þeim.

Myndirnar sýndu glæsilegt hús sem var í byggingu. Þegar við kynntumst sem var eftir að hann flúði var hann ekki öruggur um ástandið á húsinu. Frændi hans tók stóra áhættu og fór aftur til þorpsins þar sem þau höfðu búið að líta eftir eigum þeirra. Frændinn tók myndir bæði af íbúðarhúsinu og fjárhúsinu fyrir Anas sem voru orðnar rústir einar. Allt var gjörsamlega ónýtt og engu lengur til að bjarga.

Í dag er ísraelski herinn búin að gera „bufferzone“ einskinsmannsland á kílómetra svæði frá múrnum þar sem engu lífi er þyrmt. Þorpinu hans Anas var gjörsamlega jafnað við jörðu. Þar sem áður voru hús, götur, kirkja og moska er í dag aðeins grátt grjót og steypuklumpar. Heilt þorp farið af yfirborði jarðar og jafnað við jörðu. Dagurinn sem Anas fékk fréttirnar af þorpinu sínu var mikill sorgardagur og þegar hann sá myndirnar af rústunum af því lífi sem allir dagar hjá honum hafði snúist í kringum fram að þessu. Anas átti ekkert lengur að snúa aftur til. Hann var töluvert lengi að jafna sig og sætta við orðinn hlut. En lífsviljinn í palestínubúum er ótrúlega seigur. Þeir gefast ekki upp og fyrir stuttu fór baráttuviljinn að kræla aftur á sér hjá bóndanum og í dag talar hann um að verkefnin sem bíða hans þegar ósköpunum linnir. Anas á þann draum að byrja aftur upp á nýtt frá grunni. Kaupa bústofn og koma sér upp aðstöðu eins og hentar í Palestínu og fæða þjóð sína. Fátt er nauðsynlegra og meira gefandi en að rækta mat fyrir samborgara sína og ég held í vonina með honum. Við hérna norður í ballarhafi getum nefnilega hjálpað palestínubúum að halda í vonina um að bráðum komi betri tíð og þessi hryllingur taki dag einn enda. Gefum von og sýnum samkennd og gefum af okkur til þeirra sem misst hafa allt. Þannig fær lífið gildi sem leiðir til hamingju, bæði þeim sem þiggur og þeim sem gefur. Ekki síður þeim sem gefur.“

Mirjam Blekkenhorst, bóndi á Norðausturlandi.

Previous
Previous

Ellen L.

Next
Next

Björk og Kristín