Sara S.
Úlfhildur og Sara.
Þegar peningarnir tala
Ég man þegar ég heyrði fyrst frasann “Money talks!” sem krakki. Hvað ég var hissa! Hvernig í ósköpunum áttu peningar eiginlega að geta talað? Fullorðið fólk blikkaði kankvíslega og kinkaði kolli yfir þessu. Þetta var óskiljanlegt. Ég vissi að það mátti nota peninga til að skiptast á fyrir vörur og nauðsynjar en það var lítið af þeim í kringum mig og erfitt að komast yfir þá. Reynsluheimur minn af peningum var enda bundinn við mömmu sem var oftar blönk en hitt.
Mömmu féll aldrei verk úr hendi svo í stað félagsstarfa tóku heimilisverkin við eftir langan vinnudag. Ég er komin af þannig fólki, fólki sem verkjaði í skrokkinn á kvöldin. Samkvæmt greiningartólum vísindanna er uppruni minn eflaust sveipaður félagslegri skömm og efnahagslegum skorti. Ég segi þetta vegna þess að mamma stóð skyndilega uppi ein með þrjá krakka og þurfti að læra að bjarga sér í heimi sem gerði ekki þá, frekar en í dag, ráð fyrir sjálfráða konum. Hvað þá einstæðum mæðrum sem strituðu með börn til að fæða þau og klæða. Saga kvenna í aldaraðir er enda fátt annað en frásagnir af barneignum og barnsmissi — ef þær fá þar yfirleitt nokkuð pláss.
“Heyrðu já, og hér er þvotturinn!”, sagði hann og rétt mér úttroðinn plastpoka af óhreinum þvotti eftir helgi með börnunum. “Pabbahelginni” var lokið og dýrmætum tíma hans með afkomendum sínum var ekki sólundað í hversdagsleg verk og leiðinleg eins og þvott.
Ég man ekki hvenær eða hvernig það gerðist að ég fór að mæta á mótmæli og taka þátt í flokkapólitík því ég er ekki alin upp við stjórnmálaumræðu eða pólitískt starf. En það var engin tilviljun að fyrsti stjórnmálaflokkurinn sem ég starfaði með hafði kvenréttindi á sinni stefnuskrá. Ég hef vitað það frá því að ég var mjög ung hvernig konur eru kúgaðar, hvort sem þær eru meðvitaðar um það eða ekki. Konur eru enn í dag skilyrtar til að hverfa með líf sitt inn fyrir veggi heimilisins að sinna þar börnum, þvotti og fleiru sem þarf til að halda efnahagslífi heimsins gangandi.
“Njóttu!”, er gjarnan sagt við mæður með ung börn, “Þessi tími kemur aldrei aftur!” Sú líffræði, og geta til að fjölga mannkyninu, að fæða nýjan einstakling í heiminn, er í senn stórkostlegasta og hræðilegasta reynsla sem hent getur konu því konur eru skilgreindar með tvennum hætti: líffræðilega og þjóðhagslega. Þetta eru þau tvö sjónarmið sem gagnast best þjóðríkjum: konur eru fyrst og fremst framleiðendur vinnuaflsins og svo launalaust vinnuafl ríkisins. Konur eru beinlínis forsenda lífs og atvinnulífs hér á jörð.
Þær fórnir sem konur færa til að viðhalda mannkyninu hafa hinsvegar aldrei verið skráðar í sögu mannkyns með eins hryllilegum hætti og eftir 7. október 2023. Enda er það gjörsamlega lamandi að hugsa til mæðranna á Gaza. Mæðurnar á Gaza eru að lifa óhugnað sem setur kúgun kvenna og mæðra í óskiljanlegt samhengi. Hátæknilegar og rándýrar drápsvélar hafa verið hannaðar af atvinnulífinu og eru sendar til að drepa nýfædd börn og mæður þeirra fyrir allra augum! Börnin á Gaza fæðast nú sem fyrr, en þau fæðast fyrir tímann, vannærð og vansköpuð af eitrinu sem háþróuð drápstækin skilja eftir sig í rústunum.
Hvernig í ósköpunum getur þetta eiginlega verið að eiga sér stað? Hvaða öfl liggja hér að baki? Eru þetta peningarnir að tala?
Rannsóknir og nýsköpun hafa oft á sér glans vísinda og “þróunar” en á Gaza fljúga þær bókstaflega með himinskautum. Hér erum við að tala um rannsóknir og nýsköpun sem miða hárnákvæmt og án ábyrgðar eða eftirmála á lítil börn sem hafa verið send að sækja níðþungan poka af hveiti fyrir sveltandi fólkið sitt. Við erum að tala um hátæknibúnað sem vogunarsjóðir fjárfesta í fyrir “viðskiptavini” sína og skilja eftir börn sem þarf að aflima án svæfingar eða deyfingar. Þetta manngerða helvíti á jörðu væri ekki raunverulegt nema vegna þess að þetta sérstaka og vel skilgreinda drápsverkefni er að velta óheyrilegum fjárhæðum sem renna bæði úr opinberum sjóðum ríkja sem eru búnir til með skattfé almennings og fjárhæðum sem atvinnulífið veltir á undan sér — fjármagn sem má oft líka rekja til skatttöku af almenningi.
Það er nefnilega svona sem peningarnir tala eftir allt saman. Skortur á peningum snýr lífi fólks upp í streð og strit sem við þekkjum alltof mörg. En peningarnir tala með svo óhugnalegum hætti í Palestínu að annað eins þekkist ekki.
Gaza hefur verið breytt í sýningarsal fyrir nýjustu tækni og vísindi í því hvernig myrða má börn og fólk án ábyrgðar — mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Allt í beinni útsendingu. En þótt nær ekkert sé eftir af Gaza verður rándýri sýningarsalurinn ekki lagður niður þegar tortímingunni þar er lokið. Tíminn einn leiðir í ljós hvar salurinn verður settur upp næst því framleiðendur hátækni drápsvéla leggja nótt við dag í þróun betri og enn nákvæmari tækni til að drepa. Vélar sem má beita til dæmis við fólksfjölgunar ”vanda” eða “umfram” mannfjölda í framtíðinni. Ef einhvern tímann hefur skort sönnun fyrir því að það sé bölvun að vera fædd kona í feðraveldi þá eru sönnunargögnin fundin í rústum Gaza þar sem konur eru enn að fæða börn sín og klæða.
Í gegnum tíðina hef ég reglulega lagt baráttunni lið til að reyna að rétta hlut kvenna í heimi sem kúgar og fyrirlítur þær. Hugtakið vonbrigði nær ekki að lýsa því hvernig mér líður að sjá kverkatak feðraveldisins herðast út yfir gröf og dauða eins og sjá má á Gaza. Að vera þvinguð til að horfa upp þá valdníðslu sem fæst í krafti fjármagns þeirra sem vilja drottna yfir og drepa fólk er ólýsanleg tilfinning. En peningar eiga aldrei að hafa síðasta orðið enda eru peningar fyrst og fremst mælieining í skiptum fyrir vörur og nauðsynjar — stundum minnismiði um skuld. En peningar ataðir blóði barna standa fyrir skuld sem verður aldrei hægt að greiða til baka.
Ég sé það núna að barnæskan í húsi örþreyttrar og blankrar móður minnar var kannski einskonar formáli að þeim óhugnaði sem konurnar á Gaza eru látnar þola. Konurnar á Gaza eru fyrir löngu búnar með formálann af margra áratuga valdníðslu feðraveldanna og ég mun aldrei geta skilið þær hrikalegu kringumstæður sem hefur tekið yfir líf þeirra. Það litla sem ég get gert er að reyna að berjast gegn miskunnarleysinu sem dynur á þeim. Mörgum finnst það kannski hafa lítið vægi að ganga saman og mótmæla drápum á fólki, en þar sem fjöldinn kemur saman er styrkur og von sem ég sæki ekki annars staðar. Það er lífskraftur í samkenndinni. Í samkenndinni býr líka lífskraftur sem við eigum — þrátt fyrir allt.
Sara Stef. Hildardóttir, feministi og félagi í FÍP.