Margrét B.

Svo leyfist þeim að kalla mótmælendur dýr!

„Ég er táknmálstúlkurinn á sviðinu og konan í kápunni með varalit sem öskrar á mótmælum. Verandi amma sjö barna tel ég mig í fullum rétti til þess að steyta hnefann þegar líf annarra barna er í húfi. Þegar þjóðarmorð er annarsvegar hefur álit annarra á mér lítið að segja. Ég læt ýmislegt flakka og sumir halda mig kannski klikkaða en mér er slétt sama. Ég vil að barnabörnin minnist ömmu sinnar sem sem barði potta og pönnur í takt við aktivista hjartað. Að ég hafi gert allt sem ég gat í mínu valdi til þess að bæta og gera þeirra heim réttlátari. Kleinubakstur verður að vera í öðru sæti. Ég vil vera fyrirmynd fyrir fólkið mitt og skilja eftir arfleið sem þau mega vera stolt af. Þetta sagði ég við lögguna sem barði 14 ára palestínudreng á mótmælum fyrir framan Stjórnarráðið síðastliðin vetur. Ég spurði hann jafnframt hvort það væri arfleið sem hann virkilega vildi skilja eftir fyrir barnabörnin sín, að minnast afa síns fyrir að berja barn? 

Þegar yngsti strákurinn minn var aðeins eins árs gamall árið 1994 byrjaði ég að læra táknmálsfræði og hef starfað sem túlkur í 27 ár að undanteknu einu barnseignarfríi. Mér hefur alltaf fundist málfræði svo áhugaverð en íslensku námið í háskólanum leiddi mig áfram á nýjar slóðir sem var táknmálsfræðin. Ég heillaðist af þessum nýja tungumálaheim en tungumál án ritmáls inniheldur mjög ríka og skemmtilega málfræði og snertir tilfinningar á einstakann hátt. Að túlka rödd og tilfinningar annarra gerir mig séstaklega berskjaldaða einsog ég fari inn í tilfinninga kjarna innra með mér sem ég upplifi á allt annan hátt en þegar ég mæli fram mína eigin sögu eða annarra með rödd minni.

Ég hef túlkað pro bono fyrir Druslugönguna i 9 ár en ég hef líka staðið á sviðinu í Druslugöngunni og sagt mína eigin reynslusögu frá því þegar mér var hópnauðgað. Ég sýndi örið eftir einn af þessum mönnum. Gerandinn var með hring á hendi og skar á mér vörina. Vitnisburð um ofbeldið sem mér var gert sem ég mun bera utan á mér alla ævi. Þarna sagði ég reynslusögu mína með minni rödd án þess að draga nokkuð undan og án þess að bugast. 

Hinsvegar flæddu allar tilfinningar á síðustu Druslugöngu þegar ég var að túlka fjölskyldu Ólafar Töru. Upplifun mín af því að túlka tilfinningar fjölskyldunnar og reynslusögu Ólafar var mjög sterk. Sorgin helltist yfir mig afþví ég komst beint í snertingu við það sem ég kalla tilfinningakjarna sem gerist síður þegar ég nota röddina. 

Ég upplifi miklu sterkari tilfinningar í gegnum táknmál en raddmál. Mig grunar að táknmálið tjái tilfinningar betur en tungumálið þar sem við notum röddina. Ég hef oft velt þessu fyrir mér hvort þetta sé vegna þess að málfræðin í táknmálstúlkun er í svipbrigðunum, þar að segja sorgin, óttinn og allar tilfinningar og lýsingarorðin eru tjáð með andlitinu. 

Þegar hringt var í mig eftir 7. Október og ég beðin um að túlka fyrir Félag Ísland Palestína sagði ég auðvitað strax já og hef túlkað ljóð, sögur og erindi á fundum hjá þeim síðan. En gerðist þegar ég stóð á sviðinu í Háskólabíó og túlkaði Ingibjörgu Sólrúnu að allt breyttist. Ingibjörg sagði: „Foreldrar á Gaza elska börnin sín jafn mikið og við. Afar og ömmur á Gaza elska barnabörnin sín jafn mikið og við.“

Þarna brast hjartað. Ég get alveg mælt þetta fram en þegar ég þurfti að túlka það á táknmáli fór allt á hvolf innra með mér. Ég hágrét eftir þennan fund og fór út í kirkjugarð að leiði foreldra minna. Ég þurfti að ræða við þau og jafna mig. 

Fram að þessu vissi ég um ranglætið sem palestínubúar höfðu verið beittir af ísraelsmönnum. Tóta The. sá fyrir því. Móðir mín Tóta The. var virk í pólitík og baráttumál hennar snérust oftar en ekki um réttlæti fyrir hina ýmsu hópa sem nutu ekki réttinda í samfélaginu. Frá blautu barnsbeini vandist ég að mótmæla fyrir framan Ameríska sendiráðið og þramma Keflavíkurgöngurnar með foreldrum mínum. En þessi upplifun í Háskólabíó þegar ég var að túlka orð Ingibjargar á fundi FÍB var vendipunktur í mínum aktivisma og ekki aftur snúið. Þjóðarmorðið á Gaza nær langt út fyrir eitthvað sem kallast ranglæti. Orðaforði okkar nær ekki utan um það sem er að gerast. 

Ég var beðin um að auglýsa einhverjar húðvörur í sumar og ákvað að slá til og nota peninginn fyrir Gaza. Ég var í gulum kjól og ljósmyndarinn sagði við mig: „Þú ert alltaf svo reið á svipinn!“ Þetta var í kringum hungurgönguna. Ég gafst upp og hætti við allt saman. Ég yrði að finna pening á öðrum slóðum.

Ég tek reiðinni fagnandi. Reiðin er holl og getur byggt mann aftur upp. Öfugt við sorgina þá er reiðin orka sem hrindir af stað og við förum að framkvæma. Ég er í súperformi núna afþví ég fer í ræktina á hverjum degi því annars óttast ég að hjarta mitt muni hætta að slá. Ræktin kemur jafnvægi á takt hjartans og reiðin sefar sorgina. 

Þegar lögreglan úðaði piparúða á mótmælendur í Skuggasundi birtist reiði mín af alefli. Atvikið í Skuggasundi afhjúpaði nýjan veruleika valdníðslu sem tók frá mér frelsi til þess að tjá mig og frelsinu til þess að sinna næstu kynslóðum í baráttunni um réttlátan heim.

Skuggasunds atvikið svipti mig rétti mínum til þess að miðla áfram til afkomenda minna að okkur ber að vera vakandi og berjast þegar á okkur er brotið. Hversu mörg mótmæli stóð ég ekki með foreldrum mínum og síðar með mín eigin börn hvort sem þau voru í magapoka eða kerru í þeim tilgangi að sameinast öðrum í baráttunni fyrir betri heim? Út af lögreglunni þori ég ekki að fara með börn lengur á mótmæli. Ég verð ennþá svo reið þegar ég hugsa um þetta. Ég segi við allar löggur sem ég hitti í dag: „Gerið þið ykkur grein fyrir því að þetta er gerbreyttur veruleiki?“

Þegar mótmælendurnir í Skuggasundi fóru síðan í mál við lögregluna var löggunni dæmt í vil. Í dómnum stendur að lögreglan megi kalla mótmælendur „dýr“ vegna þess að lögreglan sé undir svo miklu álagi í starfi. Myndum við samþykkja að kennarar kalli nemendur sína „dýr“, eða læknar kalli skjólstæðinga sína „dýr“ eða táknmálstúlkar kalli málhafa táknmáls „dýr“ afþví vinnan sé svo erfið? Þetta var svo galið að ég skil ennþá ekki afhverju götur borgarinnar fylltust ekki af fólki að mótmæla þessu. 

Afmennskun, hvaðan kemur hún? Ég óttast þennan kulda. Ekki bara mín vegna heldur barnanna minna. Við vitum allt og sjáum en samt er eins og okkur sé alveg sama. Hvaðan kemur þetta skeytingarleysi og þessi skortur á mennsku? Ég held að þetta hafi verið eins í Þýskalandi á sínum tíma. Fólk vissi alveg hvað var í gangi þá einsog fólk veit alveg hvað er gangi í dag. Erum við svona innantóm af afþreyingu og drasli að við höfum ekki lengur tóm fyrir samkennd? 

Ég hugsa oft og vona að fólk hljóti að spyrja sig: „Langar mig virkilega að vera aukaleikarinn í þáttunum sem verða gerðir um þjóðarmorðið á Gaza í framtíðinni og vera þá sú sem fór í búbblur og Happy Hour.“

Er ekki einhverjir að velta fyrir sér hvað við skiljum eftir fyrir komandi kynslóð og mögulega verði ömmu minnst jafn fjörlega og jólaskreytingu í Hagkaup?“

 Margrét Baldursdóttir, táknmálstúlkur. 

 ​​ 

Previous
Previous

Ólöf Kristín

Next
Next

Gígja Sara